Morgungrautar hlaðborð

  • Hafragrautar hlaðborð

Að borða morgungraut saman, þegar tími gefst til, getur verið fín samverustund áður en allir halda út í daginn sitt í hvora áttina. En ekki hafa allir sama smekk. Sumum finnst einfaldleikinn bestur og vilja helst bara hefðbundinn hafragraut með mjólk og kanil, á meðan aðrir vilja alltaf vera að prófa eitthvað nýtt og spennandi.

Í staðinn fyrir að bera fram margar tegundir af morgunmat getur verið sniðugt að útbúa einfaldan hafragraut og bera hann fram í pottinum. Hafa síðan meðlæti til hliðar sem hver og einn velur í sína skál, t.d. mjólk, kanilsykur og eitthvað bragðmeira að auki.

Þetta getur verið mjög einfalt eins og að hafa opna hnetusmjörskrukku á borðinu og skera eitt epli í bita. Eða að rista fræ og hnetur á pönnu, bera fram ferska ávexti/ber í skál, eða búa til girnilegt mauk úr frosnum berjum.
Svo getur hver skammtað sér graut í sína skál og fengið sér "toppings" eftir sínum smekk. Kanilsykur og mjólk, eða eitthvað úr öllum meðlætisskálunum og allt þar á milli.
Svo getur það jafnvel gerst með tímanum að þeir allra íhaldsömustu freistist til að prufa eitthvað nýtt.

Hér er hugmynd að einföldu en góðu morgungrautar hlaðborði.
Hafragrautar hlaðborð

Hafragrautur og meðlæti

Hafragrautur fyrir 4

4 dl tröllahafrar eða haframjöl
8 dl vatn
6 lífrænar þurrkaðar aprikósur, smátt skornar (má sleppa eða bera fram í sér skál)
1-2 tsk kanill
½-1 tsk sjávarsaltflögur

Setjið allt í pottinn, kveikið undir og látið suðuna koma upp, hrærið stöðugt í.
Þegar suðan er komin upp, lækkið hitann og látið malla við vægan hita þar til grauturinn er tilbúinn eða í um
3-5 mín.

Meðlæti

Upplagt er að bera eitthvað gott fram með grautnum, eins og hnetusmjör og ferska ávexti. Hér eru fleiri hugmyndir:


Hindberjamauk

500g frosin hindber
50g hrásykur
1 tsk engiferskot, ef vill
¼ tsk sjávarsaltflögur
Allt sett í pott á miðlungsheita hellu, hrærið stöðugt, ca 4-5 mín, þar til þetta verður að
girnilegu hindberjamauki. Geymið í lokuðu íláti í kæli.

Fleiri hugmyndir

Múslí frá Himneskt
Jurtamjólk
Kanilsykur
Rúsínur eða apríkósur
Hnetusmjör
Kókosjógúrt
Fersk ber
Niðurskornir ávextir eins og perur, epli eða bananar
Döðlumauk (uppskrift hér: döðlumauk )
Hindberjamauk (uppskrift hér fyrir ofan)
Ristaðar hnetur og fræ - þurrristið á pönnu í 2-3 mín þar til fer að ilma
Kryddaðar möndlur