Sörur eru vinsælar á aðventunni, þegar smákökur eru bakaðar af miklum móð á mörgum íslenskum heimilum.
Þau sem hafa valið sér vegan lífsstíl, eða hafa ofnæmi fyrir eggjum, borða þó ekki klassískar sörur.
Okkur langaði að spreyta okkur á því að baka eggjalausar kökur sem væru innblásnar af sörum. Eftir smá tilraunastarfssemi fæddist þessi uppskrift og kökurnar eru svaaakalega góðar.
Kökurnar eru eins og áður sagði innblásnar af sörum, en bragðast auðvitað ekki nákvæmlega eins, enda annað hráefni notað. Tilfinningin er samt mjög góð... ...að finna þunnan súkkulaðihjúpinn brotna undan tönnunum, sökkva svo í dásamlegt kaffikrem og enda í mjúkum og pínu karamellukenndum möndlubotni. Fullkomnun!