Súkkulaði chiagrautur

Grautar

 • 5-6 manns
 • Auðvelt
 • Súkkulaði chiagrautur með perum
 • Vegan: Já
 • Hráfæði: Já
 • Viðbættur sykur: Nei
 • Mjókurlaust: Já
 • Eggjalaust: Já
 • Glútenlaust: Já

Uppskrift

Þessi uppskrift gefur um það bil 5 skammta af chiagraut. Grauturinn geymist einmitt í 5 daga í kæli í loftþéttu íláti.
 
 • 2 dl chiafræ 
 • 7 dl jurtamjólk (t.d. kókosmjólk og möndlumjólk til helminga) 
 • 1 tsk vanilla 
 • ¼ tsk sjávarsalt 
 • 2-3 msk hreint kakóduft 

 • Út á hvern skammt:
 • ½ pera skorin í bita 
 • ½-1 msk hnetusmjör 
 • 1 daðla ef vill, má sleppa

Veljið þá jurtamjólk sem ykkur hugnast best. Kókosmjólk gefur rjómakenndustu áferðina, hægt er að nota hana til helminga með annarri mjólk.

Fyrir létta áferð hrærið chiafræin og jurtamjólkina saman í hrærivél í svona 10 mínútur eða jafnvel lengur. Áferðin verður mjög góð. Bætið svo vanillu, sjávarsalti og kakódufti út í og hrærið í stutta stund þar til kakóið hefur blandast. Hér má bæta örlitlu vatni eða jurtamjólk út í ef kakóið blandast illa.

Ef þið eigið ekki hrærivél eða nennið ekki að taka hana fram má líka hræra grautinn á einfaldan hátt í skál eða krukku. Setjið innihaldsefnin í ílát og hrærið saman með skeið. Það tekur u.þ.b. 10 mínútur fyrir chiafræin að draga í sig vökvann, gott að hræra nokkrum sinnum með skeið fyrir jafnari áferð. 

Geymið grautinn í loftþéttu íláti inni í kæli. Grauturinn geymist í 5 daga ef notuð er jurtamjólk úr fernu, en 3 daga ef notuð er heimagerð jurtamjólk. Best er að setja perur og hnetusmjör út á grautinn í hvert skipti fyrir sig, geymsluþolið styttist ef ferskir ávextir eru settir út í grautinn sem á að geyma.

Uppskriftin gefur 5-6 skammta af chiagraut.

Hverja skál af chiagraut er dásamlegt að bera fram með hnetusmjöri og perubitum. Ef þið viljið sætari graut má brytja eina döðlu út í skálina.