Bananabrauð

Brauð og bakstur

 • Miðlungs
 • Vegan: Já
 • Hráfæði: Nei
 • Viðbættur sykur: Já
 • Mjókurlaust: Já
 • Eggjalaust: Já
 • Glútenlaust: Nei

Uppskrift

Bananabrauð er svo dásamlega gott með helgarkaffinu. Þessi uppskrift er vegan (hvorki egg né mjólkurvörur) og við notum fínt og gróft spelt til helminga, svo það er passlega gróft. Sælkerar bæta súkkulaðibitum í brauðið og þá er það eiginlega orðið að köku. Nammms! Við skreyttum með banana og möndlum ofan á, en það er ekki nauðsynlegt. Möndlurnar ristast við baksturinn og verða rosalega góðar. Bananinn gefur svona grillað bananabragð, sem minnir á fallegt sumarkvöld. 

Bananabrauð

 • 3 stórir vel þroskaðir bananar (uþb 300g)
 • 3 msk kókosolía
 • 2 msk ólífuolía
 • 1 dl kókospálmasykur
 • 1.5 tsk vanilla
 • 1.5 tsk kanill
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 225g spelt, fínt og gróft til helminga 
 • 2-3 tsk vínsteinslyftiduft
 • ½ tsk sjávarsalt 
 • 50g súkkulaðibitar/hnetur - ef vill
 • Skraut ofan á (ef vill):
 • 1 banani + saxaðar möndlur

Forhitið ofninn í 200°C (ekki blástur). Stappið banana í skál, hrærið olíum, kókospálmasykri, vanillu, kanil og sítrónusafa saman við. Blandið spelti, vínsteinslyftidufti og salti saman í aðra skál. Sameinið svo blöndurnar, en ekki hræra of lengi, bara rétt nóg til að allt blandist vel. Að lokum má bæta söxuðum hnetum eða súkkulaði varlega við. Setjið deigið í smurt form. Gaman er að skreyta með söxuðum möndlum ofan á. Bakið við 200°C. Eftir 20 mín (eða aðeins fyrr) hyljið þá brauðið með álpappír og bakið áfram í 30 mín, samtals í 50 mín. Álpappírinn er nauðsynlegur svo brauðið brenni ekki efst. Leyfið brauðinu að kólna vel áður en það er skorið í sneiðar. Það er erfitt að bíða, en sneiðarnar verða betri ef brauðið fær að kólna, helst í 30-60 mín áður en það er skorið, ef þið mögulega getið beðið :)