Orkubitar

Orkustykki

  • Auðvelt
  • Keto nammi
  • Vegan: Já
  • Viðbættur sykur: Nei
  • Mjókurlaust: Já
  • Eggjalaust: Já
  • Glútenlaust: Já

Uppskrift

Sykurlausir orkubitar henta vel fyrir þau sem vilja sleppa viðbættum sykri.
Hægt er að blanda nokkrum dropum af steviu eða öðrum sætugjafa að eigin vali út í uppskriftina ef þið viljið fá smá sætt bragð, því bitarnir eru náttúrulega ekki sætir án sætugjafa.
Bitarnir gefa orku og eru saðsamir.

  • 50g kókosmjöl
  • 50g pístasíur, gróft saxaðar
  • 50g graskerjafræ
  • 170g möndlusmjör
  • 125g kókosolía, fljótandi
  • 25g (um 2 msk) kakósmjör, fljótandi
  • 1 msk kakóduft
  • 2 tsk vanilludropar
  • ¼ tsk sjávarsalt flögur
  • nokkur chilikorn
  • (5-10 dropar stevia ef vill)

Byrjið á að rista kókosmjölið, pístasíuhneturnar og graskerjafræin í ofninum.
Hitið ofninn í 170°C.
Setjið hneturnar, fræin og kókosmjölið í ofnskúffu og látið þurrristast í 3-4 mín,
hrærið í og klárið í 2-3 mín. Passið að brenna ekki kókosmjölið.
Setjið ristuðu hneturnar og fræin í skál og látið aðeins kólna.

Bræðið kókosolíu og kakósmjör við vægan hita, eða yfir vatnsbaði.
Setjið möndlusmjör, fljótandi kókosolíu og kakósmjör, kakóduft, vanilludropa, salt og chili (ásamt nokkrum steviudropum eða annarri sætu ef vill) í blandara og blandið saman.

Hellið úr blandaranum í skálina með hnetublöndunni og hrærið saman.

Setjið í lítil form og inn í frysti.
Það má líka smyrja þessu í einu þunnu lagi á disk eða form og setja inn í frysti. Síðan þegar þetta er orðið hart þá brjótið í minni bita.