Árstíðirnar


Hnetusmjörs og súkkulaðibita kökur

Smákökur Vetur

 • Miðlungs
 • Hnetusmjörs og súkkulaðibita kökur
 • Vegan: Já
 • Hráfæði: Nei
 • Viðbættur sykur: Já
 • Mjókurlaust: Já
 • Eggjalaust: Já
 • Glútenlaust: Já

Uppskrift

Hér eru á ferðinni djúsí súkkulaðibitakökur fyrir hnetusmjörs aðdáendur. Lífrænt ræktað hráefni, ríkulegt hnetusmjörsbragð og dökkt súkkulaði: Himnesk blanda!
Uppskriftin er vegan og hentar einnig þeim sem ekki borða hveiti.
Í kökurnar notum við 71% dökkt súkkulaði frá Himneskt, sem er FairTrade vottað. Ef þið viljið nota sætt súkkulaði eins og t.d. suðusúkkulaði eða annað baksturssúkkulaði, þá er ráð að minnka aðeins sykurinn í uppskriftinni á móti. 


 • 2 tsk chiafræ - malið þau í kaffi- eða kryddkvörn
 • 4 msk vatn
 • 2 dl hreint gróft hnetusmjör, lífrænt
 • 1.5 dl hrásykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 dl hafrarmjöl, malað í kryddkvörn, hægt að nota spelt í staðinn
 • ½ tsk vínsteinslyftiduft
 • 100g dökkt súkkulaði, 71%

Byrjið á að mala chiafræ í krydd- eða kaffikvörn, hrærið svo möluð chiafræ saman við 4 msk af vatni. Látið standa í smá stund. 

Forhitið ofninn í 175°C.

Hrærið saman hnetusmjör, hrásykur, vanilludropa og útbleyttu chiafræin. Auðveldast er að nota hrærivél, en hægt að hræra með gaffli.

Malið haframjölið í kryddkvörn, bara stutt, svo það verði að fínu mjöli. Það er líka hægt að nota spelt í staðinn fyrir haframjölið. 

Hrærið möluðu haframjöli og lyftidufti út í deigið, bara rétt svo að blandist. 

Saxið rúmlega helminginn af súkkulaðiplötunni frekar fínt og veltið út í deigið. Saxið restina í aðeins grófari bita og takið til hliðar. 

Setjið bökunarpappír á ofnplötu, Mótið u.þ.b. 20 kúlur og setjið á bökunarpappírinn. Þrýstið aðeins á hverja kúlu svo þær verði aðeins flatari. Setjið nú afganginn af súkkulaðibitunum ofan á kökurnar. 

Bakið í 12 mínútur við 175°C (ekki á blæstri). Fylgist aðeins með síðustu mínúturnar, kökurnar eiga að taka smá lit en ekki vera of dökkar þegar þær eru teknar út. Látið kökurnar standa á plötunni í 5 mínútur eftir að þær koma úr ofninum, þær halda áfram að bakast á plötunni. Færið svo yfir á grind til að kólna og stífna. Þessar kökur eru aðeins viðkvæmari en hefðbundnar smákökur því hvorki eru notuð egg né hveiti til að halda þeim saman.

Ef kökurnar klárast ekki strax og þið viljið geyma afganginn af kökunum má geyma þær í kæli eða frysti. Best að hita þær aðeins upp áður en þær eru borðaðar, þær eru svo góðar volgar og mjúkar. Njótið!