Árstíðirnar


Vegan kökur innblásnar af Sörum

Smákökur Vetur

  • Miðlungs
  • Vegan sörur
  • Vegan: Já
  • Eggjalaust: Já
  • Glútenlaust: Já

Uppskrift

Sörur eru vinsælar á aðventunni, þegar smákökur eru bakaðar af miklum móð á mörgum íslenskum heimilum. 

Þau sem hafa valið sér vegan lífsstíl, eða hafa ofnæmi fyrir eggjum, borða þó ekki klassískar sörur.
Okkur langaði að spreyta okkur á því að baka eggjalausar kökur sem væru innblásnar af sörum. Eftir smá tilraunastarfssemi fæddist þessi uppskrift og kökurnar eru svaaakalega góðar.

Kökurnar eru eins og áður sagði innblásnar af sörum, en bragðast auðvitað ekki nákvæmlega eins, enda annað hráefni notað. Tilfinningin er samt mjög góð... ...að finna þunnan súkkulaðihjúpinn brotna undan tönnunum, sökkva svo í dásamlegt kaffikrem og enda í mjúkum og pínu karamellukenndum möndlubotni. Fullkomnun!


  • Kremið:
  • 260g vegan smjörlíki (t.d. Earth Balance), kalt
  • 150g flórsykur eða malaður lífrænn hrásykur
  • ½ tsk instant kaffiduft
  • 25g kakóduft, lífrænt frá Himneskt

  • Botninn:
  • 2 b möndlumjöl eða fínt malaðar möndlur
  • ½ b agavesíróp
  • 2 msk möndlusmjör
  • ½ tsk vanilla 
  • smá sjávarsalt

  • Hjúpurinn:
  • 300g dökkt súkkulaði, lífrænt og fairtrade

Fyrir kremið:

Malið hrásykurinn fínt í matvinnsluvél/blandara/kryddkvörn til að fá svipaða áferð og flórsykur (eða notið flórsykur). Gott að skella instant kaffiduftinu með í lokin, þá malast það fínna í leiðinni.
Best er að taka vegan smjörið beint úr kælinum og skera í bita. 
Setjið kalt smjör, malaðan sykur og kaffiduft og kakóduft í hrærivél og þeytið með þeytara. (Hægt að nota matvinnsluvél ef þið eigið ekki hrærivél).
Setjið kremið í ílát og geymið í kæli eða frysti. (Gott að setja í frystinn svo það kólni hratt ef þið ætlið að útbúa sörurnar strax).

Fyrir botninn:

Hrærið allt hráefnið saman í hrærivél með hrærispaða þar til allt hefur blandast saman, í ca 2-3 mínútur.
Gott að rúlla deigið í pulsur og skera svo passlega bita til að setja á ofnplötu. Passið að hafa botnana ekki of þykka.
Bakið botnana í forhituðum ofni við 180°C í ca 6 mínútur. Fylgist vel með til að ofbaka ekki, botnarnir eiga ekki að brúnast, við viljum ekki hafa þá of stökka.
Leyfið botnunum að kólna á kæligrind og setjið svo í viskastykki og inn í kæli til að botnarnir séu kaldir þegar kalt kremið er sett á og kökurnar hjúpaðar í súkkulaði.

Hjúpun:

Nú eru botnarnir að kólna í kælinum og kremið orðið kalt. Snjallt að setja tóman disk inn í kæli til að raða kökunum á á eftir.
Brjótið ca ¾ af súkkulaðinu niður í bita og bræðið í skál yfir vatnsbaði. Saxið restina smátt og geymið aðeins. Þegar súkkulaðið í skálinni er bráðnað, takið skálina úr vatnsbaðinu og hrærið saxaða súkkulaðinu út í. Hrærið nú vel í með gaffli svo það komi smá loft í súkkulaðið á meðan það er að kólna smá, það hjálpar súkkulaðinu að temprast aðeins og gefur fallegri gljáa á hjúpinn. Nú er súkkulaðið tilbúið.

Samsetning:

Smyrjið nú köldu kremi með teskeið á kalda botnana og dýfið toppnum ofan í súkkulaðið.
Raðið kökunum á disk (gott að hafa diskinn kaldan) og setjið í kæli til að stífna. 
Kökurnar geymast best í frysti.