Árstíðirnar


Rabarbara og jarðaberja sulta

Sultur Vor

  • Rabarbarasulta
  • Vegan: Já

Uppskrift

Sultan sem við deilum með ykkur í dag er blanda af rabarbara og jarðaberjum, okkur finnst bragðið fara dásamlega vel saman. Sultuna notum við ofan á ristað brauð, í hjónabandssælur og kökur, en uppáhaldið okkar er eiginlega að setja smá slettu út á morgungrautinn eða út á jógúrt. Svo er líka gott að hafa hana eins og sósu með köku eða ís.

Við notum jarðarber á móti rabarbaranum til að gera sultuna sætari, án þess að nota hefðbundið magn sykurs. Snjallt er að nota frosin jarðarber, þau eru bæði ódýrari en fersk og oft eru þau einnig sætari á bragðið.

Þar sem sultan inniheldur minni sykur en hefðbundin sulta geymist hún ekki jafn lengi. Geymist í vel lokuðum ílátum í kæli í um 4 vikur.


  • 600g rabarbari, skorinn í 1 cm þykka bita
  • 400g jarðarber (t.d. frosin)
  • 2 dl hrásykur
  • 2 msk chiafræ
  • 2 cm biti ferskur engifer
  • safi og hýði úr 1 sítrónu
  • ½ tsk sjávarsalt

Setjið allt í pott og látið standa í um 30 mín eða þar til vökvi kemur úr rabarbaranum.


Kveikið undir og látið suðuna koma upp.


Sjóðið í góðan klukkustund við vægan hita, en passið samt að suðan detti ekki niður.


Slökkvið undir og látið sultuna kólna í pottinum.


Setjið í hreinar krukkur, t.d. gamaldags sultukrukkur sem eru alveg þéttar með gúmmíteygju.

Geymist í vel lokuðum ílátum í kæli í um 4 vikur, en lengur í frysti.