Appelsínu og chia muffins
- 12 manns
- Auðvelt
- Vegan: Já
Uppskrift
Í þessar muffins notum við útbleytt chiafræ í staðinn fyrir egg. Chiafræin dreifast um allt svo kökurnar verða doppóttar að innan, minna pínulítið á poppyseeds eins og eru stundum í svona amerískum muffins.
Áferðin er góð, stökkar efst og mjúkar innan í. Alveg passlega sætar og ríkulegt appelsínubragð.
- 1 dl vatn + 2 msk chiafræ
- hýðið af einni appelsínu (helst lífrænni)
- 6 msk ferskur appelsínusafi (safi úr 1 stórri eða 2 litlum - best að mæla í msk)
- 1 dl jurtamjólk (t.d. möndlu)
- 2 msk jómfrúarólífuolía
- 1 ½ dl hrásykur
- 1 tsk vanilludropar
- 3 dl spelt
- 1 ½ dl kókosmjöl
- ½ tsk matarsódi
- 1 tsk lyftiduft
- ¼ tsk sjávarsaltflögur
Nokkru áður en baksturinn hefst er gott að byrja á því að setja 1 dl vatn og 2 msk chiafræ saman í krukku (eða skál) og blanda saman og láta standa í minnst 15 mín. (Þetta er í rauninni chiagrautur). Má líka alveg gera daginn áður og geyma í ísskápnum í lokuðu íláti (við gerum það oftast). Forhitið ofninn í 175°C og hafið muffinsformin tilbúin. Gott er að setja pappaform í muffinsformin, eða smyrja með olíu.
Raspið hýðið af einni appelsínu (eða tveim ef þær eru litlar), gott að muna að hafa bara ysta lagið með, ekki þetta hvíta sem gefur beiskt bragð. Kreistið safann úr appelsínunni (eða tveim ef mjög litlar) þar til þið hafið fengið 6 msk af safa.
Blandið saman í eina skál appelsínusafanum, appelsínuhýðinu, útbleyttum chiafræjunum, jurtamjólk, ólífuolíu, hrásykri og vanilludropum.
Blandið þurrefnum saman í aðra skál, spelt, kókosmjöl, matarsódi, lyftiduft, sjávarsalt.
Hrærið þurrefnunum létt út í hina skálina. Ekki hræra of mikið, bara nóg til að allt blandist vel saman í graut.
Hellið í u.þ.b. 12 muffinsform og setjið inn í 175°C heitan ofn, í miðjuna. Bakið í 25-30 mín (í okkar ofni er 27 mín yfirleitt fullkomið, en ofnar geta verið örlítið misjafnir). Fylgist með síðustu 10 mín, ef kökurnar eru að verða of dökkar má setja plötuna neðar í ofninn síðustu mínúturnar.