Hafrakökur
- Auðvelt
- Vegan: Já
- Viðbættur sykur: Já
Uppskrift
Þessar ljúffengu hafrakökur eru frábærar núna á aðventunni, ekki alveg jafn dísætar og jólasmákökurnar, en fínar fyrir þá sem langar í kósý bakstursstund í skammdeginu. Upplagt er að nota holla fitugjafa í baksturinn, við notum ólífuolíu og möndlusmjör í þessa uppskrift, og útbleytt chiafræ til að binda kökurnar saman. Nú er um að gera að hafa það huggulegt.
- Þurrefni
- 2 ½ dl haframjöl
- 1 ¼ dl möndlumjöl
- 1 tsk kanill
- ½ tsk matarsódi
- ¼ tsk sjávarsaltflögur
- Blautt
- 1 msk chiafræ
- 3 msk vatn
- 4 msk möndlusmjör
- 2 msk jómfrúar ólífuolía
- 1 ¼ dl hlynsíróp
- og líka
- 1 dl pekanhnetur
- ½-1 dl rúsínur
Byrjið á að hræra chiafræjunum út í vatnið og látið standa í um 10 mín svo þetta verði að þykku mauki.
Þurrristið pekanhneturnar á pönnu og saxið smátt.
Blandið þurrefnunum saman í skál og blandið síðan chiamauki, möndlusmjöri, ólífuolíu og hlynsírópi í aðra skál og hrærið saman (t.d. gott að nota hrærivél). Hrærið nú þurrefnunum út í blautu blönduna og blandið að lokum pekanhnetunum og rúsínunum saman við.
Hitið ofninn í 175°C. Setjið bökunarpappír á ofnskúffu, setjið deigið á með matskeið og fletjið út með puttunum. Gott að hafa þær rúmlega ½ cm þykkar, hafið 5 cm bil á milli hverrar köku svo þær renni ekki saman. (Ath að rúsínurnar eiga það til að brenna og verða harðar ef þær eru efst á kökunum, reynið að hafa þær inní eða undir).
Bakið í 12-15 mín við 175°C. Best er að láta kökurnar kólna aðeins á grind áður en þið njótið þeirra.