Súkkulaðimús

Frauð

Uppskrift

Þessi vegan súkkulaðimús er gerð úr dökku lífrænu súkkulaði og aquafaba. Aquafaba er vökvinn (soðið) af kjúklingabaunum, þegar vökvinn er þeyttur í hrærivél umbreytist hann eins og fyrir töfra í stífa froðu sem minnir á þeyttar eggjahvítur. Frábær nýting á hráefni sem færi annars til spillis.

Tilvalið að skella í súkkulaðimús í eftirrétt, þegar kjúklingabaunaréttur er í matinn, t.d. falafel, hummus eða pottréttur og nýta soðið í súkkulaðimús.

  • Súkkulaðimús

  • 1 ½ dl vökvi af soðnum kjúklingabaunum (aquafaba)
  • ¼ tsk cream of tartar
  • ¼ tsk sjávarsaltflögur
  • ⅛ tsk cayenne pipar
  • 1 tsk vanilla
  • 150g lífrænt dökkt súkkulaði, 71%

Setjið safann af kjúklingabaununum í hrærivél ásamt cream of tartar og salti og þeytið í 10 – 15 mín eða þar til þetta er orðið mjög stíft.

Bætið cayenne pipar og vanillu út í og látið þeytast í 1 mín í viðbót.

Á meðan þetta er að þeytast, bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Okkur finnst best að saxa súkkulaðið frekar fínt niður og hafa hitann á vatnsbaðinu ekki of háan.

Þegar súkkulaðið er bráðið hellið því yfir í aðra skál og látið kólna án þess að stífna.

Þá er komið að því að blanda þeytta baunasafanum saman við súkkulaðið. Galdurinn er að gera það mjög varlega með fáum hreyfingum til að loftið fari ekki úr þeytta baunasafanum. Við notum sleikju og veltum þeyttum baunasafanum varlega út í súkkulaðið. Það er gott að byrja að blanda helmingnum út í, þá eru meiri líkur á að loftið haldist í og útkoman verði góð.

Setjið inn í ísskáp og látið stífna. Tekur um 2 klst.

Mjög gott að bera fram með ferskum berjum og ávöxtum.