Árstíðirnar


Kanilsnúðar

Bakstur Brauð og bakstur Haust Vetur

  • Auðvelt
  • Kanilsnúðar
  • Vegan: Já
  • Hráfæði: Nei
  • Viðbættur sykur: Já
  • Mjókurlaust: Já
  • Eggjalaust: Já
  • Glútenlaust: Nei

Uppskrift

Í skammdeginu er tilvalið að baka mjúka kanilsnúða og fá ljúfan ilm í eldhúsið. Þessir snúðar eru vegan og því er notuð kókosolía í staðinn fyrir smjör. Þeir sem vilja fá smjörkeim geta notað vegan smjör, t.d. frá Earth balance í staðinn, það kemur mjög vel út. Við völdum kókospálmasykur í fyllinguna því okkur finnst hann blandast sérlega vel með kanilnum og gefa góðan keim. 

Snúðadeig

  • 6 ½ dl spelt – fínt og gróft til helminga
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk kanill
  • ¼ - ½ tsk salt
  • 1 ½ dl haframjólk
  • ¾ dl kókosolía eða vegan smjör (Earth balance)
  • 8 döðlur
  • 1 msk eplaedik 
  • Fylling:
  • 50g kókosolía eða vegan smjör (Earth balance)
  • ½ dl kókospálmasykur
  • 2 tsk kanill

Blandið þurrefnum saman í skál.
Setjið jurtamjólkina, kókosolíuna/smjörið, döðlurnar og eplaedikið í blandara og blandið þar til döðlurnar hafa leyst upp. 
Hellið jurtamjólkurblöndunni út í skálina með þurrefnunum og hnoðið í deigkúlu (fínt að nota hrærivél eða hnoða í höndunum, en ekki hnoða mikið). Ef deigið er of blautt má bæta smá spelti við. 
Finnið til hráefnið í fyllinguna. (Ef þið viljið gera snúðana aðeins meira "djúsí" eða sætari má alveg bæta aðeins við af smjöri og sykri í fyllinguna, þetta er bara smekksatriði). 

Skiptið deiginu upp í 2 hluta og fletjið hvorn hluta út fyrir sig í svona ílangan ferhyrning, passið að fletja ekki of þunnt. Gott er að strá smávegis fínt möluðu spelti á borðið og kökukeflið.
Smyrjið olíu/smjöri yfir flötinn, stráið kókospálmasykri og kanil jafnt yfir. 
Rúllið upp í tvær rúllur og skerið u.þ.b. 2-3 cm þykkar sneiðar. 

Setjið snúðana í form eða á bökunarplötu með smjörpappír og bakið við 180°C í u.þ.b. 12-15 mínútur (gæti þurft 20 mín ef þeir eru mjög stórir) eða þar til þeir eru orðnir smá gylltir á lit.


Njótið!