Árstíðirnar


Súkkulaði sætt m/döðlum

Sælgæti Vor

  • Miðlungs
  • Páskasúkkulaði úr döðlum
  • Vegan: Já
  • Hráfæði: Já
  • Mjókurlaust: Já
  • Eggjalaust: Já
  • Glútenlaust: Já

Uppskrift

Í þessa uppskrift að páskasúkkulaði notum við döðlur í staðinn fyrir hreinan sykur til að gefa sætt bragð. Virkilega gott súkkulaði úr lífrænt ræktuðu hráefni. Hægt er að gera alveg hreina súkkulaðimola, eða bæta allskyns góðgæti við eins og ristuðum hnetum og fræjum eða rúsínum, ef vill. 

  • 200g döðlur, mjög smátt saxaðar
  • 170g kakósmjör, fljótandi (gott að bræða yfir vatnsbaði)
  • 100g kakóduft
  • ½ - 1 tsk vanilluduft
  • ¼ tsk sjávarsaltflögur
  • lítil páskaeggjamót / konfektmót

Skerið döðlurnar mjög smátt (mikilvægt). 

Setjið smátt skornu döðlurnar í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til döðlurnar verða að mauki. Best að láta þær klístrast alveg saman og verða að litlum döðlubolta. 

Bræðið kakósmjör yfir vatnsbaði á meðan matvinnsluvélin er að vinna.

Setjið nú fljótandi kakósmjör, kakóduft, vanillu og salt út í döðlumaukið og látið maukast í matvinnsluvélinni þar til þetta verður alveg kekklaust. 

Gott trikk: hellið súkkulaði blöndunni yfir í blandara því þá verður blandan alveg silkimjúk. 

Ef þið viljið getið þið hrært hnetum og rúsínum út í súkkulaðið áður en þið hellið í mótin. 

Hellið nú í páskaeggjamót/konfektmót og setjið inn í frysti.