Falafel
- Miðlungs
- Vegan: Já
- Viðbættur sykur: Já
Uppskrift
Hefðbundnar falafelbollur eru djúpsteiktar, en þessar bollur eru bakaðar í ofninum, til að halda hollustunni alla leið. Einnig má steikja bollurnar á pönnu, en þá er best að velta þeim fyrst upp úr mjöli, t.d. smá spelti, möluðu haframjöli eða maísmjöli. Falafel bollur eru frábærar með góðri tahinisósu og salati. Tilvalið að bera fram í góðu pítubrauði eða í vefju eða nota stór salatblöð fyrir vefjur.
Ofnbakað falafel
- 1 krukka forsoðnar kjúklingabaunir (3½ dl)
- ½ dl rauðlaukur
- ½ dl fersk steinselja
- ½ dl ferskur kóríander
- ½ dl möluð chiafræ
- 1-2 hvítlauksrif
- 1 tsk cumin duft
- ¼ tsk kóríanderduft
- 1 tsk sjávarsalt
- 2 msk tahini
- 2 msk sítrónusafi
Forhitið ofninn í 200°C. Saxið rauðlaukinn og kryddjurtirnar. Setjið allt í matvinnsluvél og blandið þar til orðið að grófu deigi. Gott er að nota ískúluskeið til að búa til litlar bollur. Best er að rúlla hverja bollu í smástund í lófanum áður en þær eru settar á bökunarpappír svo að þær haldi forminu sem best og detti síður í sundur. Bökunartími er 25-30 mín. Snúið bollunum á hina hliðina eftir 15 mín. Falafel bollur eru æðislegar með tahinisósu og salati. Þær má líka setja í pítubrauð eða vefju með hummus og tahinisósu og grænmeti.
Sítrónu-tahinisósa
- ½ dl sítrónusafi
- 1 dl appelsínusafi
- 1 dl vatn
- 1½ dl tahini
- 3 pressuð hvítlauksrif
- ½ tsk sjávarsalt
- 2 msk ferskur kóríander
- 1 msk fersk steinselja
- 1 tsk karrý
- ½ tsk cumin
- 2 döðlur (ef vill)
Setjið allt í blandara og blandið þar til silkimjúkt.