Blómkálssúpa

Súpur

 • 2-3 manns
 • Auðvelt
 • Himnesk blómkálssúpa
 • Vegan: Já
 • Viðbættur sykur: Nei
 • Mjókurlaust: Já
 • Eggjalaust: Já
 • Glútenlaust: Já

Uppskrift

Góð blómkálssúpa er vermandi og saðsöm. Ekki er verra ef nýtt íslenskt blómkál fæst í súpuna. Hér bökum við blómkálið, hvítlaukinn og laukinn í ofni til að fá góðan ristaðan keim, en eldamennskan tekur þó ekkert lengri tíma. Njótið með góðu brauði.


 • 1 meðalstór blómkálshaus (rúmlega 500g hreinsað)
 • 1 laukur
 • 4 hvítlauksrif, með hýði
 • 2 msk ólífuolía
 • ½ tsk sjávarsalt 
 • ¼ tsk svartur pipar  
 • 2 tsk grænmetiskraftur
 • ¼ tsk þurrkað timían 
 • ½ tsk sjávarsalt
 • 800 ml vatn
 • 1 dl kasjúhnetur
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 1 dl kókosmjólk
 • vatn til að þynna ef vill
Hitið ofninn í 220°C eða 200°C með blæstri. 
Setjið bökunarpappír í ofnskúffu. Skerið laukinn í 4 báta og takið hýðið af. Setjið laukinn, óafhýdd hvítlauksrif og niðurskorið blómkálið í ofnskúffuna. Hellið ólífuolíunni yfir og stráið svörtum pipar og ½ tsk af sjávarsalti yfir. Bakið í 15 mín - eða þar til grænmetið hefur tekið lit og er orðið girnilegt. 
Setjið bakaða grænmetið í pott, en geymið smávegis af blómkálinu fyrir skraut. Munið að afhýða ofnbakaða hvítlaukinn áður en hann fer í pottinn. Bætið 8 dl af vatni í pottinn og kryddið með grænmetiskrafti, timían og ½ tsk sjávarsalti. Látið suðuna koma upp, lækkið svo hitann og leyfið að malla í 15 mín með lokið á. Á meðan er upplagt að rista kasjúhnetur í ofninum, þær þurfa u.þ.b. 5 mínútur við 200-220°C. 
Maukið svo súpuna, t.d. með töfrasprota beint ofan í pottinn, eða notið matvinnsluvél eða blandara. Bætið sítrónusafa og kókosmjólk út í þegar súpan er maukuð. Athugið að þykkt súpunnar er alltaf aðeins mismunandi eftir því hversu stór blómkálshausinn var. Þegar súpan er orðin að silkimjúku mauki er gott að skoða hvort þið viljið þynna hana aðeins með vatni. 
Smakkið nú til með auka salti, pipar eða sítrónusafa, ef ykkur finnst þurfa. 
Setjið súpu í skálar, stráið ristuðu blómkáli og ristuðum kasjúhnetum yfir ásamt smávegis af timían. Berið fram með ykkar uppáhalds brauði. Brauðið á myndinni er lífrænt heilkornarúgbrauð úr Bónus.