Grillaður borgari m/salsa

Buff og falafel Grill

  • Auðvelt
  • vegan borgari
  • Vegan: Já
  • Mjókurlaust: Já
  • Eggjalaust: Já

Uppskrift

Á sumrin er svo gaman að grilla eitthvað gott.

Ferskt salsa gerir þennan borgara mjög sumarlegan, svo ferskt og bragðgott. Það tekur í rauninni ekkert lengri tíma að græja salsa heldur en að skera niður grænmeti á borgara. Salsað er það eina sem þarf að skera niður í þessa uppskrift. Ef veðrið er gott er fínt að skera grænmetið niður úti á palli á meðan beðið er eftir að grillið hitni.

Í þenna borgara mælum við með að nota ykkar uppáhalds grænmetisbuff. Hvort sem ykkur líkar betur baunabuff eða buff sem líkist kjöti.


  • Borgari með salsa

  • Þinn uppáhalds grænmetis borgari
  • Hamborgarabrauð
  • Spicy mayo - keypt eða heimagert (uppskrift til á síðunni undir meðlæti)
  • BBQ sósa - keypt eða heimagerð (uppskrift til á síðunni undir meðlæti)
  • Ferskt salsa - uppskrift hér fyrir neðan
  • Grænar spírur eða kál
  • Salsa

  • 10 kirsuberjatómatar
  • ½ rauð paprika 
  • ½ gul paprika
  • 1 avókadó
  • ½ ferskur rauður chili
  • 1 sítróna, hýðið af henni og safinn 
  • 2 msk ferskur kóríander, smátt saxaður
  • 2 tsk agavesíróp
  • 1 tsk sjávarsaltflögur 

Kveikið á grillinu og ef það er með hitastilli þá stillið þið það á 300°C

Á meðan grillið hitnar græjið salsað:

Skerið kirsuberjatómatana, paprikurnar, avókadóið og chili í litla bita. Rífið hýðið á sítrónunni á rifjárni og kreistið safann úr henni og setjið yfir grænmetið ásamt kóríander, agavesírópi og sjávarsaltflögum.

Setjið borgarann á grillið, grillið 4 mín á hvorri hlið.


Skellið brauðinu á í 10/15 sek í lokin.


Setjið væna matskeið af spicy mayo á botnbrauðið, síðan borgarann, svo slatta af salsa, þar á eftir spírur og endið á að setja væna matskeið af uppáhalds bbq sósunni ykkar í lokið á borgarabrauðinu.


Hlakkið til að njóta!