Núðlur og grænmeti með hnetusósu

Skálar

 • 2 manns
 • Auðvelt
 • Vegan: Já
 • Mjókurlaust: Já
 • Eggjalaust: Já
 • Glútenlaust: Já

Uppskrift

Þetta er einfaldur og fljótlegur réttur að útbúa. Bara að sjóða núðlur, léttsteikja grænmeti og útbúa þessa dásamlegu hnetusósu. Svo má auðvitað bæta próteingjafa við ef vill, t.d. steikja smá tófú eða prótein að eigin vali, en það er ekki nauðsynlegt.
Gott er að nota það grænmeti sem er til í ísskápnum hverju sinni.

 • 100g hrísgrjónanúðlur
 • 200g blandað grænmeti, t.d. brokkolí, pak choi, rauðkál, maís, gulrætur, strengjabaunir og vorlaukur
 • sjávarsalt og smá pipar
 • smá ólífuolía til að steikja upp úr

 • Hnetusósa:
 • 2 msk tamarisósa
 • 2 msk hlynsíróp
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 tsk engiferskot
 • 2 dl kókosmjólk
 • 2 dl hnetusmjör
 • 1 hvítlauksrif
 • smá biti ferskur chili eða þurrkaður chilipipar
 • ½ tsk reykt paprika, ef vill

Sjóðið hrísgrjónanúðlurnar samkvæmt leiðbeiningunum á umbúðunum. 
Þegar núðlurnar eru tilbúnar, setjið þær í sigti og látið renna kalt vatn á þær í ca 20 sek.

Á meðan núðlurnar eru að sjóða búið til hnetusósuna:

Setjið allt hráefnið fyrir hnetusósuna í blandara og blandið saman.

Steikið grænmetið á pönnu. 
Byrjið á að hita olíu á pönnu og látið hana vera vel heita, bætið grænmetinu út á og steikið í um 2 mínútur. 

Kryddið með salti og smá svörtum pipar.

Fáið ykkur hrísgrjónanúðlur og grænmeti á fallegan disk og endið á að setja vel af sósu yfir.