Súkkulaði hjörtu

Sælgæti

  • Auðvelt
  • valentínusar hjörtu súkkulaði
  • Vegan: Já

Uppskrift

Súkkulaði hjörtu eru tilvalin á Valentínusardaginn eða Konudaginn.

Ristaðar hnetur og fræ gera bitana stökka og bragðgóða. Í þessa uppskrift notuðum við ýmsar tegundir af fræjum/hnetum, en þið getið líka notað þau fræ eða hnetur sem eru ykkar uppáhalds hverju sinni.
Einnig er ljúffengt að nota þurrkaða ávexti ef þið eruð hrifin af þeim.

Gott er að velja það súkkulaði sem ykkur finnst best á bragðið. T.d. 71% dökkt súkkulaði frá Himneskt ef þið eruð hrifin af mjög dökku, svo er líka hægt að nota suðusúkkulaði, t.d. frá Heima, sem er ljósara, en samt svolítið dökkt. Eða ykkar uppáhalds súkkulaði.

  • 200g dökkt súkkulaði, brætt
  • 1 msk kókosolía (má sleppa)
  • 50g möndlur
  • 50g kasjúhnetur
  • 50g graskerjafræ
  • 50g sólblómafræ
  • 25g sesamfræ
  • nokkur sjávarsaltkorn

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, ásamt kókosolíunni ef vill (til að gera súkkulaðið aðeins mýkra).

Setjið möndlur, hnetur og fræ í ofnskúffu og ristið við 160°C í 8-10mín, eða þar til þau eru orðin gyllt.

Takið möndlurnar og grófsaxið, hellið síðan hnetu/fræblöndunni út í brædda súkkulaðið og hrærið saman.

Notið falleg form, t.d. hjartalaga sílikonform (fást í búsáhaldabúðum), konfektform eða piparkökuform.

Setjið bökunarpappír á disk og  hjartalaga piparkökuform ofan á og fyllið með súkkulaðiblöndunni.

Látið inn í frysti þar til þetta er alveg orðið hart í gegn.

Ef þú átt ekki hjartalaga form er hægt að klæða kökuform eða ílát með sléttum botni með bökunarpappír, og hella súkkulaði hnetublönduna í formið og frysta, til að fá eitt súkkulaði stykki sem síðan er skorið í bita. Þá færðu ljúffenga súkkulaðihnetumola, þó þeir séu ekki hjartalaga.