Baunasúpa

Haust Súpur

  • 4 manns
  • Auðvelt
  • Baunasupa
  • Vegan: Já
  • Hráfæði: Nei
  • Viðbættur sykur: Nei
  • Mjókurlaust: Já
  • Eggjalaust: Já
  • Glútenlaust: Já

Uppskrift

Á sprengidag er hefð fyrir því að elda baunasúpu. Þessi linsubaunasúpa er lífræn og nærandi, ljúffeng og auðveld í framkvæmd.

  • 1 msk ólífuolía
  • 1 laukur, saxaður
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • ½ tsk túrmerik
  • ½ tsk  kanill
  • 1 ½ - 2 msk engiferskot
  • 250 g sætar kartöflur, brytjaðar
  • 250 g rauðar linsur (½ poki)
  • 1 lítri vatn
  • 1 msk Himneskur grænmetiskraftur
  • 1 ½ - 2 msk sítrónusafi
  • ½ tsk sjávarsaltflögur
  • salt og pipar til að smakka til 
  • 1 búnt ferskur kóríander, saxaður

Mýkið lauk og hvítlauk í ólífuolíu í u.þ.b. 5 mínútur í pottinum ásamt túrmerik, kanil og engiferskoti. Bætið svo sætum kartöflum og linsum út í. 

Hellið vatni ásamt grænmetiskrafti út í. Látið suðuna koma upp, lækkið undir og leyfið að malla í u.þ.b. 20-25 mín, eða þar til sætu kartöflurnar og linsurnar eru soðnar í gegn. 

Gott er að mauka súpuna aðeins, en bara frekar gróft svo áferðin verði ekki alveg slétt. Auðveldast er að stinga töfrasprota beint ofan í pottinn þegar súpan hefur kólnað örlítið. En einnig er hægt að nota matvinnsluvél eða blandara. Ef ykkur finnst súpan of þykk má einfaldlega bæta vatni út í á þessu stigi málsins.

Bætið nú sítrónusafa, salti og pipar út í. Smakkið til með meiri sítrónusafa, salti og ólífuolíu ef vill. Einnig má bæta meira engiferskoti út í ef þið viljið að súpan rífi aðeins í. 

Stráið söxuðum kóríander yfir hvern skammt og berið fram með góðu brauði.