Linsu tófú

Tófú

  • Miðlungs
  • Linsu tófú
  • Vegan: Já
  • Viðbættur sykur: Nei

Uppskrift

Þetta er mjög skemmtileg uppskrift að heimagerðu linsu-tófúi. Tófúið er hægt að nota í rétti á sama hátt og annað tófú.

Stórsniðugt, frekar einfalt að framkvæma og mjög gaman að prófa.

  • 200 g rauðar linsur
  • 500 ml vatn
  • 30g steiktur laukur
  • 1 tsk sjávarsaltflögur

Leggið linsurnar í bleyti í yfir nótt.

Hellið vatninu af daginn eftir og skolið linsurnar.
Setjið þær í blandara með vatninu og steikta lauknum og blandið þar til alveg silkimjúkt.

Setjið sigti yfir pott og sigtið linsudeigið, notið sleif til að þrýsta sem mestu af deiginu í gegn. Hratið sem eftir verður getið þið notað í buff eða aðra rétti.

Kveikið undir pottinum, stillið á miðlungs hita og bætið sjávarsaltinu út í.
Hrærið stöðugt í svo ekki brenni á botninum, látið suðuna koma upp og látið malla í 1-3 mínútur eða þar til þetta er orðið að mjög þykkum graut.

Hellið í form og látið stífna í kæli.