Grænmetislasagna

Ofnréttir Pasta og pizzur

  • Miðlungs
  • Grænmetislasagna
  • Vegan: Já
  • Viðbættur sykur: Nei

Uppskrift

  • 3 gulrætur, rifnar
  • 1 lítil eða ½ stærri sæt kartafla, rifin
  • ¼ sellerírót, rifin
  • 1 blómkálshöfuð, smátt skorið
  • 2 dl soðnar brúnar linsur (tæplega 1 dl ósoðnar) 
  • 400 ml kókosmjólk (eða 400ml vatn)
  • 500g (1 krukka) maukaðir tómatar
  • 3 msk tómatpúrra
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 msk ítölsk kryddblanda 
  • (eða 2 tsk oregano + 1 tsk basil)
  • 1 tsk sjávarsalt
  • cayenne pipar af hnífsoddi
  • 250g lasagna blöð
  • 200g rifinn jurtaostur

Sjóðið linsur skv. leiðbeiningum á pakka. Rífið gulrætur, sæta kartöflu og sellerírót á grófu rifjárni (t.d. hentugt að nota rifjárnið í matvinnsluvélinni). Skerið blómkálið mjög smátt, (t.d. gott að skera það í bita og setja í matvinnsluvélina og telja upp að 5, þá verður það mjög fínt niður skorið og minnir áferðin á hakk). Setjið allt (nema lasagna blöð og ost) í pott og látið suðuna koma upp, lækkið og látið sjóða í um 5-10 mín. 

Hitið ofninn í 200°C og raðið í eldfast form á meðan ofninn er að hitna:
1 lag grænmetisfylling
1 lag lasagna plötur
1 lag rifinn ost
Endurtakið

Setjið formið inn í heitan ofninn og bakið í um 25 mín.
Berið fram með góðu pestói + fersku salati. 
Njótið!

'