Heimagert ravioli

Pasta og pizzur

Uppskrift

 • Ravioli deig

 • 1 ½ b fínt spelt
 • 1 ½ b gróft spelt
 • ¾ tsk sjávarsalt
 • 1 b vatn
 • 2 msk jómfrúar ólífuolía
 • 1-2 msk kjúklingabaunamjöl/maísmjöl

 • Fyllingin

 • 300g bakaðar sætar kartöflur (bakið ca 400g í ofni)
 • 100g smurostur, t.d. vegan smurostur
 • 75g ristaðar heslihnetur, gróft saxaðar
 • 1 msk næringarger
 • 1 tsk rósmarín
 • 1 tsk sjávarsaltflögur
 • 1 tsk smátt saxaður chili eða ¼ tsk chiliflögur
 • Ofan á:

 • 200g sveppir, skornir í sneiðar og steiktir á pönnu í smávegis olíu
 • 50g ristaðar heslihnetur
 • 2 msk steinselja, söxuð
 • smá sjávarsaltflögur
 • skvetta af jómfrúar ólífuolíu

Ravioli deig 1.    Blandið saman mjöli og salti í skál. Bætið vatni og ólífuolíu út í. Hnoðið þar til þetta er orðið að deigkúlu. Ef deigið er of þurrt, bætið smá vatni út í en ef það er of blautt/klístrað bætið smá spelti út í.
    2.    Stráið spelti á borð og hnoðið deigið í um 5-10 mín eða þar til þetta er orðið að mjúku og teygjanlegu deigi.
    3.    Þegar deigið er orðið að kúlu er gott að smyrja það með smá ólífuolíu og setja síðan í hreina skál, hylja með viskastykki og láta hvíla í um 30 mínútur. Á meðan er ráð að útbúa fyllinguna.
    4.    Fletjið deigið út, frekar þunnt. Notið eitthvað hringlótt til að skera út hringi í deigið (t.d. glas eða lítinn disk). Við höfum okkar hringi ca 10 cm í þvermál.
    5.    Setjið 1 væna skeið af fyllingu á hringinn og lokið með fingrunum.  
    6.    Setjið út í sjóðandi vatn og látið vera í um 3 mín. (Á meðan er snjallt að steikja sveppina á pönnu)  
    7.    Takið upp úr með götóttum spaða, látið vatnið renna aðeins af.
    8.    Berið fram með steiktum sveppum, ristuðum hnetum og stráið yfir steinselju og nokkrum sjávarasaltkornum og skvettu af góðri ólífuolíu.

Fylling
    1.    Byrjið á að þvo, afhýða og skera sætar kartöflur í u.þ.b. 2x2 cm bita, setjið á ofnplötu með kókosolíu, sjávarsaltflögum og nokkrum rósmarín nálum og bakið við 190°C í 12-15 mín.
    2.    Þegar sætu kartöflurnar eru tilbúnar, nýtið þá ofnhitann og ristið 125g heslihnetur í ofninum, í u.þ.b. 5 mínútur. Látið hneturnar kólna aðeins, nuddið jafnvel smá af hýðinu af með viskustykki. Geymið tæpan helming af hnetunum til að nota með sveppunum á eftir, restin fer í fyllinguna.
    3.    Setjið nú öll hráefnin í skál og klípið eða hrærið saman.