Tófú skál m/ grænmeti og paprikusósu

Skálar Tófú

  • 2 manns
  • Miðlungs
  • Vegan skál, tófú, grænmeti, paprikusósa
  • Vegan: Já

Uppskrift

  • 300 g tófú, skorið í ½ cm sneiðar og síðan hver sneið í fernt
  • marinering:
  • 2 msk tamarisósa
  • 1 msk hlynsíróp
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 tsk laukduft
  • ½ tsk hvítlauksduft

  • 200g kartöflur, skornar í báta
  • ½ rauðlaukur, afhýddur og skorinn í fernt
  • ¾ tsk sjávarsalt flögur
  • ½ tsk cuminduft
  • ½ tsk paprikuduft
  • 1-2 msk kókosolía

  • 1 msk ólífuolía til að steikja uppúr
  • 200g brokkolíni
  • ½ tsk sjávarsalt 
  • ¼ tsk chiliflögur

  • 25g möndlur, ristaðar og gróft saxaðar
  • 100g agúrka, skorin í stafi
  • 100g romaine eða spínat 

  • Paprikusósa:
  • 100g heslihnetur, ristaðar
  • 1 tsk reykt paprika
  • 1 tsk sjávarsaltflögur
  • 1 krukka grilluð paprika (350g) bæði olían og paprikan, t.d. frá Ítalía

Byrjið á að léttkreista vökvann úr tófúinu með því að vefja það inn í viskustykki eða eldhúspappír, passið að kreista ekki of fast.

Skerið tófúið í sneiðar og svo í fernt og setjið í eldfast mót.

Hrærið saman öllu í marineringuna og hellið yfir tófúið.
Því lengur sem tófúið fær að marinerast því meira bragð verður af því, gott að leyfa því að marinerast í um 30 mín.




Hitið ofninn í 200°C.

Skerið kartöflurnar og rauðlaukinn í báta, kryddið og hellið olíu yfir.

Bakið kartöflurnar, rauðlaukinn og tófúið í ofninum við 200°C í 20 mín.
Snúið tófú sneiðunum eftir 10 mín.




Á meðan tófú og kartöflur bakast í ofninum, grillið brokkolínið á heitri pönnu. Hitið ólífuolíu á pönnu, setjið brokkolíníið út á og kryddið með salti og chili flögum. Ef þið eigið grillpönnu er upplagt að nota hana, grillið þar til fallegar grillrendur myndast, snúið og klárið að elda það. Ef þið notið venjulega pönnu er bara að steikja þar til brokkolíníið brúnast örlítið.


Ristið hnetur og möndlur á meðal heitri pönnu í 2-5 mín, eða þar til gylltar.

Skerið niður agúrkur og salat.



Setjið allt í sósuna í blandara og blandið þar til silkimjúkt.



Skiptið öllu í 2 skálar, grænmeti, tófú, sósu og stráið möndlunum yfir og njótið.